8 eða 9 töskur tjekkaðar inn + bílstóll? Læt það vera.
Hér er hugmyndin að halda úti einhvers konar fréttabréfi og/eða vefsvæði fyrir vini og vandamenn um veru okkar fjölskyldunnar hér í Vermont. Hvað hefur drifið á daga okkar og hvernig þetta allt saman horfir við okkur. Hver efnistökin verða nákvæmlega skal ósagt látið en um er að ræða vitnisburð í einhverri mynd.
Draumur okkar Heiðu um að flytja til Bandaríkjanna nær nokkuð langt aftur. Ég bjó auðvitað í Kanada þegar við Heiða kynntumst og var ekki á heimleið þegar örlögin tóku völdin. Heiða er vitaskuld Bandarískur ríkisborgari og saman deilum við býsna mörgum skoðunum og áhugamálum sem eiga samleið með hinum frjálsa heimi. Nú, 11 árum eftir okkar fyrstu kynni gafst færi á að láta á þetta reyna.
Planið?
Upphaflega, fyrir allnokkrum árum, féllu öll vötn til Colorado. Í Denver stýrði Heiða fyrirtæki sem flutti fisk frá Íslandi til Bandaríkjanna undir okkar eigin vörumerki. Þegar við fyrst sóttum um landvistarleyfi fyrir mig og drengina árið 2019 lá nokkurn veginn ljóst fyrir að Denver eða Boulder yrði fyrir valinu. Svo kom heimsfaraldur og býsna margt fór í skrúfuna, svo ekki sé meira sagt.
Þessu fréttabréfi er hinsvegar ekki ætlað að vera uppgjör við fortíðina.
Til að gera langa sögu stutta þá fengum við drengirnir grænu kortin svokölluðu í hendur síðasta haust, lögðumst undir feld síðasta vetur og nú er Heiða MBA nemandi við University of Vermont. Og planið er til þess að gera einfalt. Í gegnum háskólann fengum við leikskólapláss, ákveðna endurræsingu á lífið og vettvang til að mynda tengslanet. Sjálfur er ég að vinna í verkefnum heima á Íslandi, sit í stjórn Reita og verð á flakki eitthvað fram á vorið allavega. Deginum eyði ég í samvinnurými í Burlington sem kallast Hula og kvarta ekki.
Afhverju Vermont?
Vermont er eitt allra minnsta fylki Bandaríkjanna. Í norðri liggja landamærin við Kanada og ef við keyrum í 90 mínútur frá Burlington, stærstu borg Vermont, þá erum við komin til Montreal. Engu að síður erum við steinsnar frá New York og Boston. Hér mætast því nokkrir heimar sem okkur Heiðu þykir vænt um; Kanada og Bandaríkin. Stórborgir og smábæir. Í Vermont er fólkið ekki ólíkt okkur Íslendingum. Allir frekar afslappaðir og tilbúnir hjálpast að. Svo er það náttúran, ægifögur svo ekki sé meira sagt.
Sturluð staðreynd um Vermont:
Hverskyns skilti meðfram vegum eru bönnuð hér í Vermont, hreinlega með lögum. Síðan 1968.
Lendingin
Við lentum í smá brasi fyrst um sinn, þurftum að finna okkur tímabundið húsnæði og hér er ekki virkur leigumarkaður. Enduðum af þeim sökum í Stowe sem er velmegunarskíðaþorp ca 40 mínútum utan við Burlington.
Það var að mörgu leyti stórkostlegt en á sama tíma svolítið tengingarlaust því fólkið í Stowe er fyrst og fremst í fríi eða á eftirlaunum.
Þessar tvær vikur sem við dvöldum í Stowe var eiginlega gott veður allan tímann, yndislegt fólk, góður matur, sundlaugar og allt gott í alla staði. Fyrirtak, en ekki það sem við erum að fara að gera. Við erum hingað komin til að halda áfram. Aðskilnaðurinn við Stowe var því ekki sérlega erfiður en kannski þegar aldurinn færist yfir og innistæðan hækkar á reikningunum dveljum við hér aftur í lengri tíma.
BOB
Snemma í vor þegar þetta var allt saman að teiknast upp þá urðum strax býsna stressuð yfir húsnæðismálum. Íslenska krónan er auðvitað sér kapituli útaf fyrir sig og gerir lítið fyrir mann utan landsteinanna. Hitt er síðan að finna húsnæði sem er í lagi. Ég segi það strax og viðurkenni auðmjúklega að ég er alin upp við velmegun. Ég er ekki tilbúinn að búa hvar sem er. Og það er brekka þegar maður ætlar að finna húsnæði í Bandaríkjunum. Búandi á Íslandi með enga bankasögu eða meðmæli og síður en svo með fulla vasa fjár eftir baráttu við SARS-CoV-2 og Ásgeir Jónsson. En með þrjóskuna að vopni, endalausa tölvupósta, símtöl og hamagang þá komumst við (Heiða) í samband við Bob.
Og það kemur á daginn að hann og Jill konan hans höfðu nýverið keypt hús tengdaföður hans heitins. Og hann var tilbúinn að leigja okkur það - með innbúi. Sjálf búa þau rétt hjá og þekkja hér hvern krók og kima.
Og nú búum við smá út í sveit, þó ekki nema 20 mínútur frá háskólanum hennar Heiðu og leikskólanum hans Róberts og þetta er bara satt best að segja frekar stórkostlegt allt saman. Við erum umvafin fallegri náttúru, 5 mínútur að labba niður að Lake Champlain og hér er ró og friður. Síðan eru Bob og Jill eru ekta góðir Kanar, gestrisin með eindæmum og minna mig raunar á fyrstu leigusalana mína í Kanada um árið sem eru einir bestu vinir okkar í dag. Tilfinningin er á þá leið að við höfum dottið í lukkupottinn.
Téður tengdafaðir Bob - Mark Sikora - sem byggði þetta hús sem við búum í og keyrði sjálfur á pallbílnum sínum í 100 ára afmælið sitt áður en hann dó úr Covid, barðist í seinni heimstyrjöldinni. Heiðu finnst það ekki leiðinleg tenging. Per se.
Gæfan
Hér í Burlington býr íslensk fjölskylda, Sigfús og Unnur ásamt barnaskara. Eins og gengur eigum við nokkrar tengingar og þekkjumst þrátt fyrir að þekkjast ekki neitt. Alla jafna hef ég verið aðeins á bremsunni með íslendinga erlendis, maður er jú ekki að flytja út til að kynnast fleiri íslendingum (hvernig er aftur þessi nk/ng regla? stór eða lítill stafur?). En Sigfús og Unnur falla ekki í þann flokk, toppfólk og þau eiga pallbíl!
Veruleikinn
Nú mjatlast þetta áfram. Eitt og annað í höfn, ansi margt eftir. Róbert hefur staðið sig eins og hetja á leikskólanum og líður augljóslega vel í góðum höndum frábærra kennara. Fyrstu setningarnar á ensku eru byrjaðar að myndast og hann er að kenna krökkunum handbolta.
Brekkan
Við látum ekki gott tækifæri framhjá okkur fara til að vera smá einlæg. Þrátt fyrir að allt gangi vel og það sé gott veður og flest stórkostlegt við Bandaríkin þá er þetta síður en svo einfalt eða auðvelt. Við eigum okkar meltdown með stuttum millibilum, hvæsum á hvort annað og bugumst aðeins þess á milli. En eins og Roosevelt sagði: “Nothing worth having comes easy.”
Næsta fréttabréf
Það bíða okkar ærin verkefni um miðjan september. Bílpróf, heilsutryggingar, húsgagnaverslanir og Costco. Svo þurfum að við að skjótast heim í brúðkaup Steina bróður og tæma Hjarðarhagann í leiðinni. Stay tuned.
Ps.
Maður rekst nú á nokkra ansi góða öðru hvoru þegar maður slysast inn á öldurhúsin til að fá vegaleiðsögn. Þetta er hann Boo vinur minn, hann glímir við nokkra lífsstílssjúkdóma en heldur í gleðina.